Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   Kosningaauglýsingar   

Skemmtikraftur eða stjórnmálamaður?

23.5.2006

Finnskir skrímslarokkarar sýndu okkur fram á það um helgina að það þarf ekki berleggjaðar fegurðardísir til þess að vinna Eurovision. Raunar fór illa fyrir fáklædda keppandanum okkar, Evrópubúar sáu ekki ástæðu til þess að hleypa Silvíu Nótt áfram upp úr forkeppninni.

Silvía Nótt tók úrslitunum eins og henni einni er lagið; með því að úthúða öllum þeim sem að keppninni stóðu, saka aðra keppendur um græsku og Evrópubúa um heimsku og lúðaskap. Og þrátt fyrir að vera afar ósátt við úrslitin kvaðst Silvía bara of góð fyrir Eurovision, næst myndi hún leggja Ameríku að fótum sér og gefa út „ógeðslega töff“ geisladisk.

Og það er kannski rétt hjá Silvíu – sigur eða ósigur í Eurovision skiptir hana kannski ekki höfuðmáli. Hins vegar hefur hún fengið gríðarlega athygli sem hún getur síðan byggt frekari sigra á – hverjir sem þeir nú verða.

En það eru fleiri á fullu í markaðssetningu en Silvía Nótt. Landsmenn geta varla kveikt á sjónvarpinu án þess að þurfa að horfa upp á örvæntingarfullan frambjóðanda opinbera vankunnáttu sína í golfi og að grilla. Sá sækist eftir því að ná kjöri til borgarstjórnar Reykvíkinga, krefjandi verkefni sem krefst mikillar þekkingar á málefnum borgarinnar. Málefnin falla aftur á móti í skuggann af því að frambjóðandinn reyni af fremsta megni að skemmta okkur hinum líkt og Silvía Nótt.

Kjósendur virðast hins vegar enn sem komið er ekki ætla að veita frambjóðandanum brautargengi inn í borgarstjórn. Hverju mun þá rándýr auglýsingaherferð EXBÉ skila? Er frambjóðandinn kominn á kortið og hefur hann lagt grunninn að frekari frama eða er allt saman unnið fyrir gýg?

Þessu geta engir svarað nema kjósendur, því það erum jú alltaf við sem höfum síðasta orðið. Veljum málefni fram yfir auglýsingaskrum og kjósum þá sem raunverulega hafa eitthvað fram að færa.

ht


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur