Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   Mannréttindi   

Til hamingju með ný lög!

29.6.2006

Í fyrradag var alþjóðlegur baráttudagur samkynhneigðra. Hann var sérlega gleðilegur hér á landi, ekki sist vegna þess að þá tóku gildi lög um réttarbætur fyrir samkynhneigða. Samkvæmt lögunum geta samkynhneigð pör nú skráð sig í sambúð eins og gagnkynhneigð pör. Þar með fá samkynhneigðir sömu réttindi og gagnkynhneigðir, m.a. hvað varðar almannatryggingar, lífeyri, skatta og erfðir.

Þá breytist nú staða samkynhneigðra hvað varðar ættleiðingar en nú fá samkynhneigð pör sama rétt og gagnkynhneigð pör til að ættleiða börn en í öllum tilfellum þurfa pör að ganga í gegnum strangt opinbert ferli til að fá slíka heimild. Þá fá lesbíur rétt til tæknifrjóvgunar á opinberum sjúkrastofnunu. Þá er réttarstaða samkynhneigðra til fæðingarorlofs skýrð í lögunum sem á að gera báðum foreldrum kleift að verja tíma með nýfæddum börnum sínum.

Full ástæða er til að fagna þessum réttarbótum en um þær náðist þverpólitísk sátt. Ísland fylgir þannig í humátt á eftir þeim ríkjum heimsins sem hafa staðið fremst í flokki í réttindamálum samkynhneigðra. Þó að auðvitað sé alltaf hægt að gera betur og Ísland megi gjarnan taka frumkvæðið í þessum málum verður að segjast að við erum framarlega í flokki og er það vel. Íslendingar geta verið stoltir af þessari löggjöf. Til hamingju með hana.

kj


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur