Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   Náttúruvernd   

Hvílík fórn

27.7.2006

Nokkur umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum um hið fyrrverandi friðland Kringilsárrana. Ferðamannatíminn þar er nú í hámarki. Ekki venjulegu sumarhámarki heldur í lokahámarki. Nú líður síðasta sumarið þar sem þetta stórfenglega svæði er aðgengilegt ferðamönnum. Næsta sumar verður stærsti drullupollur á Íslandi orðinn til.

Það er hins vegar fleira í húfi. Afar lítil umfjöllun hefur verið um Jökulsá í Fljótsdal, á sem verður dælt um inntakslón við Eyjabakkafoss vestur í Hálslón og þaðan í gegnum virkjunina. Hún mun því hverfa úr sínum náttúrulega farvegi svo eftir situr aum lækjarspræna úr aðliggjandi hlíðum næstu fjalla. Tíu þúsund ára mikilúðleg áin verður geld, hverfur í neðanjarðargöng og verður látin sprautast út um útfallsop í bland við nágrannann, Jökulsá á Dal, við dalsmynni Fljótsdalsins og saman liðast þær út í Lagarfljótið.

Nýlega gekk höfundur þessarar greinar niður með Jökulsá í Fljótsdal austanverðri. Lagt var af stað frá brú á ánni rétt fyrir neðan Eyjabakkafoss og gengið niður að Glúmsstaðaseli í Norðurdal. Leiðin liggur niður um 500 metra af fossum og flúðum í ánni. Hver fossinn tekur við af öðrum, frá Eyjabakkafossi, um Hrakstrandarfoss, Skakkafoss, Tungufoss, Kirkjufoss, Gjögurfossa, Faxfoss og Ófærunesfoss auk óteljandi flúða á milli.

Hlýtt var í veðri og sólskin á jöklinum svo vatnsmagn í ánni var með mesta móti. Fossarnir eru afar mikilúðlegir og jafnast sumir við þekktustu og fallegustu fossa landsins.

Væru einhverjir þessara fossa í Þjórsá eða Hvítá væru þeir ekki að hverfa. Almenningur á Íslandi tæki það ekki í mál.

Þessir fossar eru enn lítið þekktir meðal almennings. Fáir íslendingar eru áskrifendur að Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, þar sem mjög góðar greinar hafa birst um fossaröðina. Örfáir tugir manna hafa gengið með listafélaginu Augnabliki í skipulögðum ferðum þarna um. Langflestir íslendingar hafa varla hugmynd um nema hluta þeirra náttúruperla sem munu hverfa innan örfárra vikna. Langflestir íslendingar vita lítið um hvílík fórn er að eiga sér stað.

Hvílík fórn.

þr


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur