Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   Mannréttindi   

Meðferð við femínisma?

14.8.2006

Auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn var hefur vakið athygli en þar var auglýst einhvers konar meðferð við samkynhneigð. Aðstandendur auglýsingarinnar munu vera nokkur kristin trúfélög og einstaklingar sem telja samkynhneigð óeðlilega og óæskilega — úr því að þau telja rétt að fólk leiti sér meðferðar við henni.

Hægt er að kynnast hugmyndafræði þessara aðila m.a. á heimasíðu sem kallast www.kirkju.net en þar eru greinar eftir Íslendinga sem flestir eru kaþólskir. Þar er einnig talsvert af vísunum á erlendar heimasíður þar sem má finna umfjöllun um aðskiljanlegustu efni, s.s. femínisma, getnaðarvarnir, hjónabandið og samkynhneigð.

Meðal þess sem sagt er um femínisma er að veraldlegur femínismi hafi ekki fært konum meiri hamingju eða vellíðan. Hugsanlega sé hægt að vera kristilegur femínisti en því fylgir að nota ekki getnaðarvarnir enda auki þær lauslæti og geri konum kleift að vera mun meira úti á vinnumarkaðnum sem geri þær ekki hamingjusamari. Ekki er alveg ljóst hvað er femínískt við þennan kristilega femínisma annað en að trúa því að guð hafi gert konur jafnar mönnum — óháð þessum veraldlega heimi sem flestir búa í þar sem konur eru óvart ekki jafnar mönnum. Kannski má einhvers staðar á þessum undirsíðum finna meðferð við veraldlegum femínisma?

Argast er út í getnaðarvarnir sem spilla hjónaböndum, auka „hættuna“ á kynlífi fyrir hjónaband sem hafi líka neikvæð áhrif á hjónabönd og svo framvegis. Og fjallað er um samkynhneigð og vísað á margar síðar þar sem fólk getur fengið „meðferð“ — m.a. síðu sem kennir sig við Exódus þar sem segir að „frelsi sé mögulegt“ (í merkingunni frelsi frá samkynhneigð) og á annarri síðu segir að það sé önnur leið en þar segir frá einstaklingum sem hafa „læknast“ af samkynhneigð, flestir með því að elska Jesú í stað einhvers einstaklings af sama kyni.

Öll þessi umræða hljómar kannski einkennilega í nútímasamfélagi en minnir okkur eigi að síður á að tilteknar kirkjudeildir hafa ekki þróast í takt við annað í samfélaginu. Skoðanir sem þessar snúast um að útiloka ákveðna samfélagshópa og gera tortryggilega með því að einblína á kynhneigð þeirra sem dregin er upp sem óeðlileg og læknanleg. Því miður virðast þessar skoðanir enn eiga upp á pallborðið hjá einhverjum — sem telja augsýnilega líka að konum fari best að vera heima og eignast börn. Þetta sýnir bersýnilega að nauðsynlegt er að ganga leiðina til enda en hið endanlega markmið eru full mannréttindi til ásta og lífshamingju.

kj


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur