Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   List og pólitík   

Andófslist

22.9.2006

Í gallerí Kling og Bang stendur nú yfir pólitísk listasýning sem ber yfirskriftina Guðs útvalda þjóð. Forkólfur sýningarinnar er Snorri Ásmundsson, sem er þjóðkunnur fyrir pólitíska gjörninga, forsetaframboð og stofnun stjórnmálahreyfingar.

Hafi einhverjum fundist pólitískir gjörningar Snorra einkennast af léttúð og jafnvel hálfkæringi þá á það svo sannarlega ekki við hér. Guðs útvalda þjóð reynist vera Ísrael, en heiti sýningarinnar hefur skírskotanir í fleiri áttir, til Bandaríkjanna og raunar mun víðar. Í ávarpi Snorra í sýningarskrá segir: „[S]tríð þjónar aðeins valdagræðgi og kapítalisma“ og einnig „Sameinuðu þjóðirnar eru lamaðar vegna neitunarvalds Bandaríkjanna“. Hápólitískara getur það ekki orðið en gagnrýnin beinist ekki aðeins út í lönd heldur einnig að hinni íslensku valdastétt sem hefur fylgt hinni bandarísku leiðarstjörnu undanfarin ár og raunar áratugi. Nú segja listamenn „hingað og ekki lengra“ að sögn Snorra.

Þetta er ekki listrýni og ekki ætlunin að leggja mat á listaverk sem eru af ýmsu tagi og bjóða upp á margræða túlkun. Alls taka 28 aðilar þátt í sýningunni og fjölbreytnin er mikil. Það vekur þó athygli að nokkrir listamenn beina andófinu í aðra átt en gegn Ísrael, t.d. Kárahnjúkavirkjun. Hólfahugsun vanans segir manni að þetta séu aðskilin mál, en auðvitað eru ótalmargar tengingar þar á milli, ekki síst í íslensku samhengi. Sömu aðilar standa fyrir hvorttveggja og hinar pólitísku víglínur eru svipaðar. Orðræða valdsins er söm í báðum tilvikum.

Friðarstefnan hefur löngum notið góðs liðsinnis meðal íslenskra listamanna. Sá stuðningur hefur lifað þrátt fyrir aldafar sem krefst aðgreiningar listar, samfélags og stjórnmála. Það er gott að vita að sá andi er ennþá ör og heitur og má sjá afraksturinn af því á Laugaveginum í þessum mánuði.

sj


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur