Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   Mið-Asía   

Sögubrot af Tyrkja II: Nútímalegur tyrkjasoldán fallinn frá

23.12.2006

Það virðist sem að tyrknesk ríki komi ekki í heimsfréttirnar nema sem skemmti-og aðhlátursefni fyrir fjölmiðla í iðnveldunum. Hið ímyndaða Kazakstan sem Sasha Baron Cohen fann upp ásamt grínfígúrunni Borat er dæmi um þessa stöðu Tyrkjans í nútímanum. Borat átti sér hins vegar raunverulega hliðstæðu í forseta Türkmenistans, Saparmurat Nijazov, sem féll frá nú á fimmtudaginn.

Segja má að Nijazov hafi verið aðhlátursefni um allan heim fyrir persónudýrkun sem þótti sérviskuleg úr hófi fram. Ófáar fréttir hafa birst í Morgunblaðinu um hvers konar uppátæki hans. Hann nefndi t.d. janúarmánuð í höfuðið á sjálfum sér, en apríl eftir móður sinni og lét skipta út Hippókratesareiði lækna fyrir trúnaðareið við sjálfan sig. Þá gerði hann sitt eigið ritverk, Rukhnama („bók andans“), að skyldulesefni í skólum. Karl gerðist einnig ljóðskáld og má finna dæmi um verk hans í íslenskri þýðingu hér og hér. Sjálfur þóttist hann þó vera heldur á móti persónudýrkun, en eitthvað þyrfti hann að gera fyrir fólkið sem tilbæði hann.

Á bak við þessi grátbroslegu uppátæki forsetans býr hins vegar veruleiki sem var öllu kaldranalegri og á Nijazov sannast kannski hið fornkveðna að sá hlær best sem síðast hlær. Nijazov kann að hafa verið aðhlátursefni í fjölmiðlum en í klúbbi þjóðhöfðingja heims var aufúsugestur og naut trausts leiðtoga risaveldanna. Hvernig komst þessi einræðisherra í þá stöðu?

Saparmurat Nijazov var fæddur í Ashgabat, höfuðborg Türkmenistans, árið 1940. Hann missti ungur fjölskyldu sína og ólst upp á munaðarleysingjahæli. Að því leyti á aðdáun hans á móður sinni sér tragíska hlið, ekkert síður en kómíska. Nijazov náði hins vegar að hefja sig upp fyrir aðstæður sínar og naut þess að í ríki sósíalismans í Sovétríkjunum ríkti þrátt fyrir allt töluverður félagslegur hreyfanleiki. Ungir menn sem tileinkuðu sér rétta menntun og hugmyndafræði gátu hafist til áhrifa þrátt fyrir að þeir kæmu af lágum stigum. Nijazov lærði verkfræði í háskóla, en sú menntun var aðgöngumiði að stjórnendastétt hins vísindalega sósíalisma. Nijazov reis til metorða á valdatíma Leoníds Brezhnevs, en á þeim tíma voru dugmiklir stjórnendur metnir töluvert meir en hugsjónamenn.

Tækifæri Nijazovs kom svo 1985 þegar æðsta yfirmanni Kommúnistaflokks Türkmenistan, Muhammad Gapúsov, var vikið frá völdum vegna spillingar. Nýr ráðamaður í Sovétríkjunum, Mikhail Gorbatsjov, vildi efla unga menn til áhrifa; menn sem gætu tileinkað sér hina nýju hugsun sem átti að leiða Sovétríkin úr ógöngum til betri tíðar. Nijazov var ungur maður af þessu tagi og Gorbatsjov skipaði hann aðalritara Kommúnistaflokks Türkmenistan. Þar með var hann orðinn áhrifamesti maður landsins.

Árin 1989-1991 breyttist draumur Gorbatsjovs í martröð. Sovétríkin leystust upp í valdaskaki pólitískra ævintýramanna. Leiðtogar hinna tyrknesku lýðvelda sambandsríkisins voru flestir mun íhaldssamari en Gorbatsjov og þeim leist ekkert á lýðræðistal hans og þá efnahagslegu kollsteypu sem var fylgifiskur umbreytinganna. Þegar Boris Jeltsín, forseti Rússlands, sá sér hag í því að leysa upp Sovétríkin fengu þessir menn jafnframt sitt tækifæri. Í hverju tyrkneska lýðveldinu komust slíkir menn til áhrifa; Nazarbajev í Kazakstan, Karímov í Úzbekistan, Akajev í Kirgisíu, Alíév í Azerbaidjan. Nijazov var einungis einn af mörgum smákóngum sem skyndilega voru orðnir þjóðhöfðingjar í löndum sem bjuggu ekki við neina lýðræðishefð og skiptu umheiminn litlu máli.

Í vestrænum fjölmiðlum hétu þessir menn „umbótasinnar“ vegna þess hversu fúsir þeir voru að varpa hinum kommúníska arfi fyrir róða. Fáir gengu þar lengra en Nijazov sem kallaði marxisma „félagslegan sjúkdóm“. Hin nýja pólitík hans var tyrknesk þjóðernishyggja sem fyrst í stað beindist gegn rússneskum menningaráhrifum. Kennslubækur frá Sovéttímanum voru bannaðar, almenningsbókasöfnum lokað svo ekki sé minnst á styttingu náms til stúdentsprófs um eitt ár. Í staðinn fyrir hinar bönnuðu bækur kom fyrst og fremst eitt rit, Rukhnama. Sjálfur kallaði Nijazov sig Türkmenbashi eða Tyrkjaföður til að undirstrika að fyrsti forseti landsins væri sönn þjóðfrelsishetja.

Síðar urðu sanntrúaðir múslimar helsti skotspónn Tyrkjaföðursins, sem var veraldlegur þjóðernissinni eins og Saddam Hussein. Hann lét m.a. banna síð skegg en einnig sítt hár, gulltennur, óperu og ballett. Hann lét reisa stærstu mosku Mið-Asíu og nefnist hún „andi Tyrkjaföðurs“. Var ósk hans að hvers sá sem læsi Rukhnama þrisvar kæmist beint til himna eftir lát sitt.

Nijazov var mikilvægur viðskiptavinur Rússa og Kínverja, en hagur hans fór þó fyrst að vænkast eftir að „stríðið gegn hryðjuverkum“ hófst 2001. Innrás Bandaríkjanna í Afganistan og stuðningur við Norðurbandalagið þar var honum mjög að skapi. Hann gerðist mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna í stríðinu gegn Afganistan sem ennþá stendur yfir. Hann var einnig fús til að gerast undirverktaki Bandaríkjastjórnar við að yfirheyra „hryðjuverkamenn“ með tilheyrandi pyntingum.

Þannig er veruleiki hins nýja kalda stríðs, „stríðsins gegn hryðjuverkum“. Maður eins og Saparmurat Nijazov var réttur maður á réttum stað, hvorki kommúnisti né íslamisti, vinur vinna sinna og til í hvers konar skítverk sem gátu fært honum vináttu ráðamanna í Washington.

Eftir andlát Nijazovs lýsti Bush Bandaríkjaforseti yfir harmi sínum, en Rússland og Evrópusambandið hafa lýst „áhyggjum“ og væntingum um áframhaldandi stöðugleika. Eðlilegt er þó að velta fyrir sér hvað „stöðugleikinn“ hafi fært Türkmenum undanfarin 15 ár.

sj


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur